Jórukórinn hefur veturinn af fullum krafti með bæði tónleikum og flóamarkaði í hjarta bæjarins og eru spennandi tímar framundan. Í vor heldur kórinn upp á 20 ára afmæli og af tilefninu verða stórtónleikar.
Þann 7. október kl. 20:00 mun kórinn halda tónleika í Selfosskirkju. ,,Við náðum ekki að syngja vortónleikana okkar hér á Selfossi og fannst því tilvalið að endurflytja prógrammið, svona í upphafi viðburðaríks árs. Lagaval hjá okkur er fjölbreytt og á ýmsum tungumálum, mest falleg og hressileg dægurlög undir stjórn Stefáns Þorleifssonar og við undirleik hljómsveitar. Hljómsveitina skipa Róbert Dan Bergmundsson á bassa, Stefán Ingimar Þórhallsson á trommur og Sveinn Pálsson á gítar,” segir Laufey Ósk Magnúsdóttir formaður Jórukórsins. ,,Við höldum einnig í fasta liði og höldum árlegan flóamarkað okkar í sömu vikunni, eða dagana 9. og 10. október.”
Flóamarkaður Jórukórsins verður að þessu sinni að Austurvegi 6, sem áður hýsti Sparisjóð Vestmannaeyja, og verður opinn frá kl. 13:00 – 18:00 á föstudeginum 9. október og frá 10:00 - 16:00 á laugardeginum. Þeir sem vilja styrkja kórinn með hlutum í leit að nýju heimili geta komið þeim til kórkvenna.
Ýmsir hlutir munu fást gegn hóflegu gjaldi á markaðnum. Þar má nefna fatnað, leikföng, bækur, húsgögn og allskyns góss sem gaman er að gramsa í. Ekki má svo gleyma heimabökuðu góðgæti sem einnig verður til sölu. Kaffihúsastemmningin verður á sínum stað, rjómavöfflur, rjúkandi kaffi og eitthvað fyrir börnin.
Flómarkaðurinn er aðal fjáröflun kórsins og um að gera að gera þar góð kaup, hitta mann og annan og lífga upp á bæjarlífið. Kórfélagar vonast til að sjá sem flesta, bæði á tónleikum og á Flóamarkaði.