Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs verða haldnir í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni í Reykjavík miðvikudagskvöldið 22. apríl, síðasta vetrardag. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 en húsið opnar klukkustund fyrr með fordrykk og lifandi tónlist.
Að þessu sinni verður létt klúbbastemning hjá kvennakórnum. Gestir sitja við borð og geta keypt veitingar á barnum sem verður opinn meðan á tónleikunum stendur. Eftir tónleikana verður síðan áfram lifandi tónlist og opinn bar eitthvað fram eftir kvöldi.
Hluti tónleikanna er tileinkaður íslenskum lögum allt frá þjóðlögum að dægurlögum s.s. Blástjarnan, Ást og Betri tíð. Annar hluti dagskrárinnar er settur saman af þekktum erlendum lögum í jazzútsetningum. Þar er að finna lög eins og Blue Moon, Dream a little dream og Summertime.
Það er kórkonum ánægja að kynna að með þeim í för að þessu sinni eru frábærir listamenn. Söngkonan Stefanía Svavarsdóttir, Richard Korn leikur á bassa, Ellert S. B. Sigurðarson á trommur og gítar og síðast en ekki síst John Gear sem leikur á trompet og píanó en hann er jafnframt stjórnandi kórsins.
Eftir rysjóttan vetur svífur andi ástar, drauma og kannski örlítil von um sólríkt sumar yfir tónleikunum. Vonast kór konur eftir að sem flestir komi með í þetta ferðalag, það sakar ekki að láta sig dreyma.