Helginni 7.-8. mars eyddu Kyrjurnar austur í Ölfusi, á Hótel Eldhestum. Þar voru þær við æfingar og undirbúning vortónleika kórsins sem haldnir verða um miðja maí nk.
Æfingar hófust strax við komuna austur á laugardagsmorgninum og var unnið fram eftir degi, með matar- og kaffihléum. Einnig var farið í stutta gönguferð um næsta nágrenni og sveitaloftinu með hestalyktinni andað djúpt að sér.
Þegar líða tók að kvöldi voru nóturnar lagðar til hliðar og haldið af stað út í heitu pottana, þar sem þreytan var látin líða úr kroppunum. Dásamlegt var að sjá hrossin hlaupa og kljást í rökkrinu, um það bil sem Venus birtist á vesturhimni.
Mikil gleði og glaumur ríkti svo yfir kvöldverðarborðum. Þema kvöldsins voru hattar og höfuðskraut og skemmtu Kyrjur sér eins og þeim einum er lagið. Að sjálfsögðu brustu þær svo allar í söng undir lok vel heppnaðrar kvöldstundar.
Snemma á sunnudagsmorgninum var haldið áfram að þjálfa röddina og æfa lögin og stóðu æfingar yfir fram eftir degi. Seinnipart dagsins var síðan haldið heim á leið yfir heiðina, eftir mjög skemmtilega og vel heppnaða æfingaferð.