Kvennakórinn Ljósbrá í Rangárvallasýslu varð 20 ára í febrúar síðastliðnum.
Kórinn var stofnaður af nokkrum söngelskum konum úr Rangárþingi í febrúar 1989. Fyrstu árin voru kórmeðlimir 10 til15, en nú eru í kórnum um 40 konur úr Rangárvalla- og Árnessýslu. Stjórnandi kórsins síðan 2003 er Eyrún Jónasdóttir. Kvennakórinn Ljósbrá fékk Menningarverðlaun Töðugjalda og Sunnlenska fréttablaðsins árið 2006.
Í tilefni afmælisársins gefur kórinn út geisladisk sem ber nafnið Fljóðaljóð. Lögin á honum eiga öll eitthvað kvenlegt sameiginlegt, sum eru um konur, önnur samin af konum og öll eru þau að sjálfsögðu flutt af konum í Kvennakórnum Ljósbrá.
Haldnir verða afmælis- og útgáfutónleikar laugardagskvöldið 7. nóvember næstkomandi í Hvolnum á Hvolsvelli kl. 20. Þar verður stiklað á stóru í sögu kórsins með söng, gríni og gamanleikjum. Á tónleikunum leikur undir það góða tónlistarfólk sem annaðist undirleik við gerð disksins, en það eru; Djassband Suðurlands, Grétar Geirsson harmonikkuleikari, Uelle Hahndorf sellóleikari og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari.
Þeir sem hafa áhuga á að eignast geisladiskinn Fljóðaljóð með Kvennakórnum Ljósbrá geta sent póst á omargret(hjá)simnet.is eða hringt í Margréti Hörpu í síma 868 2543. Geisladiskurinn kostar kr. 1800. Þess má geta að kórkonur hafa bróderað í hvert umslag og fylgir nál með diskinum.