Kvennakór Akureyrar hefur starfað síðan 2001 og heldur því upp á 10 ára afmæli sitt í ár. Kórinn hefur á að skipa öflugum og skemmtilegum konum á öllum aldri sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af því að syngja saman, fyrir sig og aðra.
Kórinn tekst á við skemmtileg og ögrandi verkefni af ýmsu tagi og íslensk tónskáld eru honum einkar hugleikin. Kórinn æfir einu sinni í viku og aukaæfingar eru haldnar eftir þörfum. Tónleikar eru haldnir nokkrum sinnum á ári og farið í söngferðalög reglulega utan sem innanlands. Sumarið 2012 stefnir kórinn á Íslendingaslóðir í Kanada og svo mun kórinn takast á við það skemmtilega verkefni að halda Landsmót Kvennakóra árið 2014. Því er í nógu að snúast hjá Kvennakór Akureyrar.
Í tilefni af afmælinu heldur kórinn tónleika n.k. laugardag þann 19. nóvember í Hömrum, Hofi kl. 15:00. Þar mun kórinn stikla á stóru yfir þessi 10 viðburðaríku ár og flytja lög sem spanna sögu kórsins. Einnig mun kórinn frumflytja afmælislagið Árstíðirnar eftir texta Önnu Dóru Gunnarsdóttur kórfélaga við lag Daníels Þorsteinssonar stjórnanda kórsins. Með kórnum á tónleikunum spilar hljómsveit skipuð Aladár Rácz á píanó, Pétur Ingólfsson á kontrabassa og Emil Þorri Emilsson á slagverk.
Miðaverð á tónleikana er kr. 2000 og hægt að kaupa miða á www.menningarhus.is eða í afgreiðslunni í Hofi. Frítt er fyrir 14 ára og yngri.
Að tónleikunum loknum eða um kvöldið verður skemmtun í félagsheimilinu Hlíðarbæ, rétt utan Akureyrar, þar sem kórfélagar, stjórnendur og gestir borða saman, skemmta sér og rifja upp söguna í máli og myndum.