Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, var stofnað 5. apríl 2003 og fagnar því 10 ára starfsafmæli nú. Mikil gróska hafði verið í kvennakórastarfi í nokkurn tíma þegar Gígjan var stofnuð og hefur sú þróun haldið áfram, en við stofnunina voru 17 kórar aðilar að landssambandinu en þeir eru nú 29 með yfir þúsund konum.
Í ræðu sem Margrét Bóasdóttir, verndari Gígjunnar hélt á stofnfundinum, sagði hún meðal annars:
"Undirbúningsnefnd að stofnun Gígjunnar var skipuð í lok landsmótsins í Reykjanesbæ og sá Ingibjörg Guðjónsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar um að kalla okkur saman. Auk hennar voru í nefndinni Guðrún Karlsdóttir frá Kvennakór Suðurnesja, Kristín G. Ingimundardóttir Kvennakór Hafnarfjarðar, Þuríður Pétursdóttir Kvennakór Reykjavíkur, Stefán Þorleifsson, stjórnandi Kyrjukórsins í Þorlákshöfn og ég sem hér stend.
Stofnun þessara samtaka á sér nokkurn aðdraganda. Ef við hugsum aftur til síðustu aldar, fyrir 1990, þá voru ekki margir kvennakórar starfandi. Árið 1987 tek ég við stjórn Kvennakórsins Lissýjar, sem var starfræktur af Kvenfélagasambandi S-Þingeyinga og er mér í minni þegar Hólmfríður Benediktsdóttir sem hafði verið stjórnandi kórsins þau 2 ár sem hann hafði þá starfað, bað mig um að taka við, þar sem hún fór erlendis í framhaldsnám. Ég hugsaði: "Ýmislegt hef ég nú gert, en að stjórna kvennakór"! Skemmst er frá því að segja að ég hef sjaldan gert neitt eins skemmtilegt eins og að stjórna þessum kór 60 kvenna á aldrinum 18-73 ára. Þegar að því kom árið 1992 að taka ákvörðun um að flytjast búferlum þá var söknuðurinn mestur yfir því að skilja við þennan kór.
Vorið 1992 kom fram sú hugmynd hjá okkur í kvennakórnum Lissý að halda landsmót kvennakóra. Við öfluðum okkur upplýsinga um hve margir kórar væru starfandi og það fundust 5 kórar. Þeir mættu allir til leiks í félagsheimilinu Ýdölum og voru þetta um 150 konur. Minnsti kórinn kom lengst að: Kvennakórinn Ljósbrá úr Rangárvallasýslu með 14 kórfélaga. Ári síðar fór ég á vortónleika þeirra á Hvolsvelli og þá höfðu þær snúið tölunni við – voru orðnar 41".
Alls hafa verið haldin átta landsmót kvennakóra. Þau eru nú haldin á þriggja ára fresti og verður næsta mót haldið á Akureyri 9. - 11 . maí 2014. Á síðasta mót sem haldið var á Selfossi árið 2011 mættu um 600 konur og sást þar vel hversu öflug þessi hreyfing er.
Í tilefni þessara tímamóta fékk stjórn Gígjunnar Þóru Marteinsdóttur tónskáld til að semja lag fyrir aðildarkórana sem hún og gerði við ljóð eftir skáldkonuna Unni Benediktsdóttur Bjarklind (Huldu). Sótt var um styrk fyrir Tónverkasjóð Gígjunnar til Hlaðvarpans vegna þessa og hlaut verkefnið rausnarlegan styrk.
Lagið verður frumflutt í Hörpunni sunnudaginn 7. apríl nk. á hátíðartónleikum í tilefni af 20 ára afmæli Kvennakórs Reykjavíkur og munu um 420 konur úr 6 kórum syngja lagið „Breyttur söngur“. Auk Kvennakórs Reykjavíkur syngja konur úr kórunum Vox Feminae, Léttsveit Reykjavíkur, Senjorítur, Cantabile og Stúlknakór Reykjavíkur.
Aðrir kórar sem stjórn Gígjunnar hefur fengið fregnir af að ætli að flytja afmælislagið í vor eru Kvennakór Háskóla Íslands sem flytur lagið á vortónleikum í Hátíðarsal Háskólans á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, Kvennakór Kópavogs, Kvennakór Öldutúns og Kvennakór Ísafjarðar ætla að flytja lagið saman ásamt norska kvennakórnum Corevi á litlu kvennakóramóti á Ísafirði laugardaginn 27. apríl, Kvennakór Hafnarfjarðar flytur lagið á vortónleikum í Hásölum 4. maí, Kvennakór Suðurnesja er með lagið á sinni dagskrá á vortónleikum sem haldnir verða 6. og 8. maí í Reykjanesbæ, Kvennakórinn Ymur ætlar að flytja lagið á vortónleikum í byrjun maí, Kvennakór Akureyrar syngur lagið á sínum vortónleikum í lok maí og Kvennakór Hornafjarðar ætlar að syngja lagið á vortónleikum 16. og 26. maí. Þær ætla líka að leyfa Ítölum að njóta þessa fallega lags en þær fara í söngferð til Ítalíu í byrjun júní og munu væntanlega flytja lagið á tónleikum þar.
Stjórn Gígjunnar óskar öllum aðildarfélögum sambandsins til hamingju með afmælið!