Kvennakór Akureyrar var með æfingadag laugardaginn 17. nóvember í Brekkuskóla á Akureyri. Til stóð að taka daginn snemma og vera mættar við Hríseyjarferjuna á Árskógssandi fyrir kl. 9:30 og dvelja í eyjunni við æfingar til kl. 17:00. Á föstudeginum var hins vegar ákveðið að fara ekki úr bænum þar sem spáin hljóðaði uppá 20-30 metra á sekúndu og norðlenska stórhríð. Þá var brugðið á það ráð að æfa í okkar venjulega æfingahúsnæði í Brekkuskóla og tókst það mjög vel og var mæting mjög góð, t.d. var 100% mæting hjá altröddunum. Í hádegishléinu var snædd súpa og nýbakað brauð frá veitingastaðnum Friðriki V. Eftir matinn hófst svo tískusýning. Fatanefndin kom með tillögu að nýjum kórbúningi fyrir Kvennakór Akureyrar og höfðu þær saumað sýnishorn. Að tillögunum var gerður mjög góður rómur og fengu sýningarstúlkurnar mikið hrós og klapp. Jólakortanefndin hafði einnig staðið í ströngu og var mætt með jólakortin í ár og var hverri konu gert að selja a.m.k. fimm pakka af kortum. Framundan eru svo styrktartónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar þann 2. desember.