Það er ekki lognmollan hjá stelpunum í Kvennakór Kópavogs.
Á sumardaginn fyrsta hyggjast þær leggja land undir fót. Fyrst er förinni heitið vestur í Dali, nánar tiltekið í Búðardal þar sem áð verður í Leifsbúð og sungið um kl. 13:00 við opnun Jörfagleði. Leiðin liggur síðan alla leið til Ísafjarðar þar sem kórkonur munu dveljast dagana 25.-28 apríl og taka þátt í kóramóti í boði Kvennakórs Ísafjarðar. Aðrir kórar þar verða Kvennakór Öldutúns úr Hafnarfirði og norski kórinn Corevi. Allir kórarnir munu syngja á tónleikum í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 27. apríl kl 17:00.
Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni verða vortónleikar kórsins sem áður var frestað haldnir í Digraneskirkju miðvikudagskvöldið 1. maí kl. 20:00. Boðið verður upp á takfasta tóna og suðræna sveiflu en þar koma fram ásamt kórnum þau Kristjana Stefánsdóttir og Bogomil Font. Á hljóðfærin spila Helga Laufey Finnbogadóttir á píanó, Axel Haraldsson á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa. Stjórnandi kórsins er að vanda Gróa Hreinsdóttir.
Eftir vortónleika verður síðan skipt um takt. Þá ætlar hópur úr kórnum að taka þátt í s.k. Mótorhjólamessu sem er árlegur viðburður í Digraneskirkju á annan í hvítasunnu, 20. maí. Verður messan í ár með sveitahljómi og gospellsniði.
Vonast Kópavogskonur til að sjá sem flesta á þessum stöðum í vor.