Kvennakór Akureyrar hefur opnað nýtt vefsetur: http://kvak.is. Nýja vefsetrið er glæsilegt í alla staði og hefur ýmsar upplýsingar að geyma um Kvennakór Akureyrar. Á vefsetrinu er saga kórsins rakin, birtur nafnalisti með öllum kórfélögum, myndir af kórfélögum, upplýsingar um stjórnendur og stjórnir kórsins, lagalisti, fréttir af starfinu og myndir svo fátt eitt sé talið. Gígjan óskar Kvennakór Akureyrar hjartanlega til hamingju með nýja vefsetrið.
Saga Kvennakórs Akureyrar
Eftirfarandi texti ef tekinn af nýju vefsetri Kvennakórs Akureyrar http://kvak.is
Fyrstu drög að kórnum ná aftur til ársins 1997 þegar hópur kvenna tengdar íþróttafélaginu KA ákvað að stofna blandaðan kór sem syngi aðallega létta dægurtónlist. Illa gekk að fá karlaraddir í kórinn, og var honum þá breytt í kvennakór.
Veturinn 2000-01 voru aðeins 16 kórfélagar starfandi og því var ákveðið að kynna starfsemina með söng á kaffihúsinu Bláu Könnunni og auglýsa um leið eftir kórfélögum í nýjan kvennakór. Viðbrögð voru á þann veg að kórfélögum fjölgaði í 100 manns á næstu vikum.
Á aðalfundi árið 2001 var ákveðið að gefa kórnum formlega nafnið Kvennakór Akureyrar og undanfarin ár hafa um 80 konur verið stöðugt í kórnum. Frá byrjun til ársins 2003 var stjórnandi kórsins Björn Leifsson, en þá tók við stjórn Þórhildur Örvarsdóttir og stjórnaði í tvö ár. Haustið 2005 tók svo við stjórn Arnór H. Vilbergsson.
Kórinn flytur íslensk og erlend lög, þjóðlög, negrasálma, lög úr söngleikjum og fleira, en yfirleitt eru á dagskrá lög á léttari nótunum.
Kvennakór Akureyrar heldur aðaltónleika á Akureyri í mars eða apríl ár hvert, auk jólatónleika þar sem kórinn syngur, í samvinnu við aðra kóra, jólalög til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Einnig er sungið við ýmis önnur tækifæri. Fyrir lok hvers starfsárs hefur kórinn farið í styttri ferðalög og haldið tónleika í nágrannasveitum eða öðrum bæjarfélögum.
Metnaður í kórnum fer vaxandi og sumarið 2005 lagði kórinn upp í sína fyrstu utanlandsferð og var ferðinni heitið til Slóveníu. Tókst sú ferð afar vel, haldnir voru þrennir tónleikar og landið skoðað vítt og breitt.
Kvennakór Akureyrar
Netfang: kvak@kvak.is
Veffang: http://kvak.is