Tíminn líður hratt, sumarið nálgast og með hækkandi sól fara konur í Kvennakórnum Ljósbrá í Rangárvallasýslu að ókyrrast og vilja láta ljós sitt skína. Að þessu sinni verða tvennir tónleikar haldnir í maí, í Menningarsalnum á Hellu miðvikudagskvöldið 1. maí kl. 20:30 og í Áskirkju í Reykjavík laugardaginn 4. maí kl. 16:00. Aðgangseyrir er kr. 2.000, frítt fyrir 16 ára og yngri. Lagaval er fjölbreytt að venju, gospel, íslensk og erlend dægurlög og íslensk sönglög. Einnig er á efnisskránni nýtt lag, Breyttur söngur, eftir Þóru Marteinsdóttur við ljóð eftir Huldu en lagið er samið í tilefni af 10 ára afmæli Gígjunnar, sambands íslenskra kvennakóra.
Félagar úr Jassbandi Suðurlands munu sjá um undirleik af sinni alkunnu snilld. Einnig munu einsöngvarar koma fram og er Gyða Pálsdóttir kórmeðlimur þar á meðal. Fríða Hansen, upprennandi söngstjarna úr Rangárþingi, mun taka lagið með kórnum og einnig mætir tenórinn Egill Árni Pálsson á svæðið en hann er ættaður frá Laugarási í Árnessýslu og hefur meðal annars látið rödd sína hljóma í óperuhúsum í Þýskalandi.
Félagar í Ljósbrá eru 35 og stjórnandi kórsins frá hausti 2011 er Maríanna Másdóttir.
Láttu þig ekki vanta á tónleika hjá Kvennakórnum Ljósbrá, skemmtilegt og fjölbreytt lagaúrval!