Nú er komið að því að gestir fái að njóta afraksturs af vinnu Kvennakórs Hornafjarðar á 17. starfsári hans. Haldnir verða þrennir tónleikar tónleikar á Íslandi auk þess sem einnig verða tónleikar á Ítalíu.
Nú þegar hefur kórinn haldið tvenna tónleika á Höfn. Fyrstu tónleikarnir í Sindrabæ þann 16. maí voru með óhefðbundnu sniði sem mátti frekar líkja við kaffihúsakvöld með skemmtidagskrá en tónleika. Laugardaginn 25. maí var kórinn svo á öllu hefðbundnari nótum en þá voru haldnir tónleikar í Hafnarkirkju.
Þann 4. júní leggur kórinn síðan upp í langferð. Fyrsti viðkomustaður er í Árbæjarkirkju í Reykjavík þar sem sungnir verða tónleikar þriðjudagskvöldið 4. júní kl. 20. Aðgangseyrir er 2000 kr.
Að þeim loknum liggur leiðin til Keflavíkur þaðan sem flogið verður á vit ítalskra ævintýra. Þar ætla kórkonur að eiga nokkra daga saman ásamt mökum sínum. Auk þess að slappa af og njóta ítalskrar sólar og menningar syngur kórinn tónleika í borginni Bressanone.
Kórfélagar þakka Hornfirðingum og öðrum vinum fyrir veittan stuðning í vetur og vonast til að sjá sem flesta á tónleikum í vor.