Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar verða 20. maí
Kvennakór Garðabæjar heldur vortónleika sína næstkomandi þriðjudagskvöld 20. maí kl. 20:00 í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Tónleikarnir bera yfirskriftina Taktfast og töfrandi og á tónleikunum munu hljóma verk frá ýmsum heimshornum.
Listrænn stjórnandi tónleikanna er sópransöngkonan og bæjarlistamaður Garðabæjar Ingibjörg Guðjónsdóttir. Píanóleikari kórsins er Sólveig Anna Jónsdóttir.
Miðasala og veitingar
Miðaverð í forsölu 2000 kr. Forsala hjá kórkonum og á kvennakorgb@gmail.com.
Miðaverð við inngang 2500 kr. Boðið verður upp á kaffi og kökur eftir tónleikana.
Um Kvennakór Garðabæjar
Kvennakór Garðabæjar var stofnaður á haustmánuðum árið 2000. Stjórnandi og jafnframt stofnandi er Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona. Markmið kórsins er að gefa konum tækifæri til að taka þátt í metnaðarfullu söngstarfi, auk þess að skapa sterka félagslega heild. Fjölbreytt lagaval og fágaður söngur hefur verið einkennismerki kórsins.
Ár hvert stendur kórinn fyrir öflugri menningardagskrá. Þar ber hæst aðventu- og vortónleika kórsins auk Góugleði, sem er menningarkvöld Garðabæjar. Kórinn syngur einnig við margvísleg tækifæri árið um kring. Í tilefni af tíu ára afmæli kórsins árið 2010, kom út geisladiskurinn Jólasöngur sem inniheldur sextán íslensk og erlend jólalög.
Hægt er að fylgjast með starfssemi kórsins á facebook: https://www.facebook.com/kvennakorgb