Kvennakór Suðurnesja heldur jólatónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 3. desember kl. 20. Á tónleikunum mun kórinn að sjálfsögðu syngja jólalög úr ýmsum áttum og fleiri falleg lög. Dagný Þórunn Jónsdóttir, stjórnandi kórsins syngur einsöng og félagar úr kórnum munu einnig flytja einsöngslög og dúetta, en það eru þær Sigurbjörg Hjálmarsdóttir, Birta Rós Arnórsdóttir, Steinunn Björg Ólafsdóttir og Guðbjörg Guðmundsdóttir. Meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir, Marína Ósk Þórólfsdóttir leikur á þverflautu og Salka Kristjánsdóttir leikur á selló. Almennt miðaverð er kr. 1500, en kr. 1000 fyrir eldri borgara og frítt er inn fyrir 12 ára og yngri. Miðasala verður við innganginn.
Það er í nógu að snúast þessa dagana hjá kórfélögum, en síðastliðinn sunnudag söng kórinn við messu í Árbæjarkirkju. Þá er nóg að gera í fjáröflunarstarfinu, en kórinn hefur verið með sölubás í Skansinum síðustu þrjár helgar og mun verða þar um næstu helgi, 5.-6. desember kl. 12-18 báða dagana. Þar eru á boðstólum jólakort og afmælisdagatöl með myndum eftir listakonuna Hildi Harðar og ýmislegt fleira skemmtilegt. Kórinn fór í sína árlegu laufabrauðsgerð seinnipartinn í nóvember, var afraksturinn m.a. seldur í Skansinum og er laufabrauðið nú uppselt.