Þann 20. nóvember síðast liðinn voru Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2008 afhent. Að venju voru það tveir aðilar sem hlutu verðlaunin og að þessu sinni voru það Kvennakór Suðurnesja og Leikfélag Keflavíkur. Bæði félög héldu nýverið upp á 40 ára afmæli, Leikfélagið í fyrra og Kvennakórinn í febrúar á þessu ári.
Menningarverðlaunin eru afhent árlega einstaklingum, félagasamtökum eða fyrirtækjum sem hafa unnið að eflingu menningarlífs í bænum. Verðlaunagripurinn er í formi grips sem listamaðurinn Karl Olsen úr Reykjanesbæ hannaði og smíðaði. Má þar sjá Súluna, sem er í merki bæjarins, gerða úr málmi, og er hún fest á stein úr landi Reykjanesbæjar. Árið 2005 gerði listakonan Elísabet Ásberg nýjan grip. Þar má einnig sjá Súluna en nú aðeins sem höfuð sem gert er úr silfri og fest á lítinn stöpul úr steini. Einnig er afhent undirritað og innrammað verðlaunaskjal.
Mikil gróska hefur verið í starfi Kvennakórs Suðurnesja undanfarið en hann hélt upp á fjörutíu ára afmæli á þessu ári eins og áður sagði. Kórinn tók þátt í alþjóðlegri kórakeppni á Ítalíu í október 2007 með frábærum árangri, þar sem kórinn lenti í gullflokki. Í febrúar voru síðan haldnir glæsilegir afmælistónleikar í sal Íþróttaakademíunnar ásamt Léttsveit Tónlistarskólans í Reykjanesbæ og einsöngvurunum Bjarna Thor og Dagný Jónsdóttur, stjórnanda kórsins. Kórinn tók þátt í landsmóti kvennakóra sem haldið var á Höfn í Hornafirði í apríl. Auk þess söng kórinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt 2008 og í Duushúsum á Ljósanótt í Reykjanesbæ og við fleiri tækifæri.
Á myndinni er Erla Arnoddsdóttir formaður Kvennakórs Suðurnesja með verðlaunagripinn.