Kvennakór Garðabæjar fagnar nú 15 ára afmæli sínu en kórinn var stofnaður á haustmánuðum árið 2000.
Í tilefni þessa merku tímamóta mun kórinn halda afmælistónleika sunnudaginn 10. maí í Guðríðarkirkju.
Nýársgleði í upphafi árs
Nýárgleði kórsins var haldin í byrjun janúar. Þar fjölmenntu kórkonur ásamt mökum og áttu skemmtilega kvöldstund saman. Nokkrir eiginmenn tóku að sér að skipuleggja kvöldið sem var allt hið glæsilegasta. Þemað var Spánn í tilefni af söngferð kórsins til spænsku borgarinnar Barcelona næsta haust. Skemmtunin hófst á metnaðarfullu tónlistaratriði frá ungum tónlistarnemum í FÍH. Formaður kórsins flutti ræðu og fólk steig á stokk með gamanmál af ýmsum toga. Mikið var sungið enda ekki annað við hæfi þegar kór gerir sér glaðan dag.
Styrkur til Konukots
Í febrúar færði kórinn fulltrúa Konukots styrk að upphæð 60.000 kr. en styrkurinn er ágóði af sölu jólamerkis kórsins fyrir síðustu jól. Konukot er athvarf fyrir heimilslausar konur og rekið af Rauða krossinum og Reykjavíkurborg. Kórinn þakkar Garðabæingum og öðrum velunnurum fyrir ómetanlegan stuðning við kaup á merkinu á aðventunni.
Konudagsmessa í Vídalínskirkju
Konudagsmessan í Vídalínskirkju skipar fastan sess í hugum kórkvenna enda orðin að árlegum viðburði í kórstarfinu síðast liðin tíu ár. Kórinn bregður sér í hlutverk kirkjukórs og sér um almennan safnaðarsöng auk þess að syngja nokkur vel valin kirkjuverk. Þennan dag var kirkjan þéttsetin af konum og öðrum góðum gestum sem tóku fagnandi þessu flotta framtaki kirkjunnar og séra Jónu Hrannar Bolladóttur, sóknarprests.
Kóramót á Spáni
Árlegur aðalfundur kórsins var haldinn í marsmánuði þar sem fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf svo sem lagabreytingar, kosning í stjórn og árskýrsla formanns. Á fundinum var tekin sú ákvörðun að skrá sig til þátttöku í alþjóðlegu kóramóti sem haldið verður á Barcelona á Spáni seinnihluta októbermánaðar 2015.
Hátíðartónleikar 10. maí í Guðríðarkirkju
Mestur tími kórkvenna, í upphafi nýs árs, hefur farið í æfingar og undirbúning fyrir afmælistónleika kórsins sem haldnir verða í Guðríðarkirkju sunnudaginn 10. maí kl. 16. Að vanda verður efnisskrá tónleikanna fjölbreytt með klassískum kórverkum í bland við léttari sönglög. Að tónleikum loknum er öllum tónleikagestum boðið upp á léttar veitingar að hætti kórkvenna. Við biðjum alla velunnara okkar að taka daginn frá en við munum auglýsa tónleikana vel hér á Gígjunni og á facebook síðunni okkar.