Á heimasíðu Gígjunnar hér efst hægra megin er nú að finna tengil (Tónlistarbrunnur) yfir á heimasíðu Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar í Reykjavík. Tengillinn vísar á lista yfir þau lög og tónverk fyrir kvennakóra sem Tónverkamiðstöðin hefur til sölu. Alls eru þetta um 100 titlar. Hægt er að skoða nótur af fyrstu nótasíðu hvers lags og senda Tónverkamiðstöðinni póst með nánari fyrirspurnum og pöntunum.
Samstarf Gígjunnar og Tónverkamiðstöðvar
Gígjan og Tónverkamiðstöðin munu á næstunni hefja samstarf um að vista
lög sem Gígjan hefur flutningsrétt á inni á sérstöku vefsvæði hjá
Tónverkamiðstöðinni. Með ákveðnu lykilorði munu allir aðildarkórar
Gígjunnar fá þar aðgang og geta prentað út lögin sér að
kostnaðarlausu.
Í upphafi munu verða þar lög sem samin hafa verið, eða
útsett fyrir Landmót íslenskra kvennakóra og lög sérstaklega samin
fyrir ákveðna kóra, en stefnt er að því að koma upp upplýsingum og
vönduðum netbanka með lögum fyrir kvennakóra.
Málið er enn í vinnslu og við munum láta vita þegar þessi síða er orðin aðgengileg aðildarkórum Gígjunnar.
Þær sem vilja senda fyrirspurnir eða ábendingar til Nótunefndar,
vinsamlegast hafið samband við Sigrúnu Óskarsdóttur; sigrun(hjá)brostu.com
kær kveðja,
Nótunefnd Gígjunnar;
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir
Margrét Bóasdóttir
Nánari upplýsingar um nótunefnd Gígjunnar er að finna undir síðunni "Nefndir".