Það verður nóg um að vera hjá Kvennakór Suðurnesja á næstunni, en kórinn mun syngja á fimm tónleikum í maí. Kórinn heldur vortónleika í Listasmiðjunni á Ásbrú mánudaginn 3. maí, þar sem verður kaffihúsastemmning, og í Bíósal Duushúsa miðvikudaginn 5. maí. Tónleikarnir hefjast kl. 20 bæði kvöldin. Kórinn mun frumflytja nokkur létt og skemmtileg lög eftir Eirík Árna Sigtryggsson við ljóð Þórarins Eldjárns en auk þess verða flutt lög úr óperum, dægurlög og kirkjuleg verk. Helgina 7. – 9. maí fer kórinn til Akureyrar þar sem hann mun halda tónleika ásamt Kvennakór Akureyrar í Laugaborg í Eyjafirði laugardaginn 8. maí kl. 17. Laugardaginn 15. maí syngur kvennakórinn síðan á tónleikum í Bíósalnum ásamt Átthagakór Strandamanna og miðvikudaginn 19. maí tekur kórinn þátt í minningartónleikum sem haldnir verða um Siguróla Geirsson. Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir.
Það hefur ýmislegt verið í gangi hjá kórnum frá áramótum, en hann fór í sínar árlegu æfingabúðir í Skálholti helgina 6. – 7. febrúar sl. Þangað hefur kórinn farið um árabil og líkar mjög vel. Þarna er mjög góð gistiaðstaða, frábær matur og fín æfingaaðstaða, reyndar mætti flygillinn vera betri en allt annað er mjög gott. Í Skálholti var að sjálfsögðu mikið sungið og á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka sem hófst á ljúffengum kvöldverði en á eftir voru heimatilbúin skemmtiatriði og fjör. Þetta var frábær ferð að venju.
Á konudaginn, 21. febrúar, söng kórinn við helgistund í Álfagerði í Vogum en þar sáu konur að öllu leyti um athöfnina enda vel við hæfi á þessum degi.
Laugardaginn 20. mars fór kórinn svo í heimsókn til Kvennakórs Kópavogs sem bauð til skemmtikvölds þar sem fjórir kórar hittust og gerðu sér glaðan dag. Auk þessara tveggja kóra mættu Kvennakórinn Ymur á Akranesi og Karlakór Kópavogs. Kvennakór Kópavogs bauð upp á glæsilegan kvöldverð, síðan sungu kórarnir nokkur lög hver og á eftir voru heimatilbúin skemmtiatriði, gamanmál og fjöldasöngur. Þetta var frábær skemmtun og fær Kvennakór Kópavogs bestu þakkir fyrir.
Aðalfundur kórsins verður síðan haldinn mánudaginn 17. maí og að loknum tónleikum 19. maí tekur við sumarfrí hjá kórkonum.
Gleðilegt sumar!