Aðildarkórum Gígjunnar hefur borist mjög svo skemmtilegt boðsbréf frá Svövu Kristínu Ingólfsdóttur og Bergljótu Arnalds um þátttöku í Kærleikshátíð.
Bergljót Arnalds rithöfundur, leikkona og lagasmiður hefur fengið þá hugmynd að fá alla kóra í Reykjavík, blandaða, karla- og kvennakóra til að koma saman laugardaginn 14. febrúar kl. 18 19 til að syngja saman tvö íslensk lög við tjörnina í Reykjavík. Tilefnið er Kærleikshátíð haldin innan Vetrarhátíðar í Reykjavík.
Hér er hluti úr bréfinu frá Bergljótu en öllum formönnum hefur verið sent það í tölvupósti:
Mig langar að bjóða kórnum þínum að taka þátt í hátíð þar sem minnt er á hinar jákvæðu tilfinningar sem tengja okkur saman. Hugmyndin er að leyfa ást og kærleika umleika okkur í einn dag burt séð frá því hvaðan við komum eða hvaða stöðu við gegnum. Hátíðin á að sameina fólk, bæði unga sem aldna, af erlendu bergi brotnu, ólík trúfélög, samkynhneigða, listamenn, iðnaðarmenn, bankamenn, mótmælendur, stjórnvöld o.s.frv. Þetta verður dagur þar sem við öll sameinumst um það sem við viljum og leggjum til hliðar reiðina í garð þess sem við viljum ekki. Þema hátíðarinnar er óður til ástarinnar, samkennd, hlýja sem veitir styrk og gjöf jákvæðra tilfinninga til hvers annars.
Við munum hefja athöfnina á Austurvelli þar sem ýmsir fulltrúar leggja fram fallegar hugsanir. Hjörtu sem grunnskólabörn hafa útbúið verða einnig afhent. Þá verður haldin mínútu þögn þar sem við sendum jákvæða strauma út í samfélagið. Þegar þögnin er liðin leggjum við af stað í Kærleiksgöngu við undirspil brassbands sem leiðir gönguna ásamt kyndilberum. Gangan er hugsuð sem 'meðmælaganga' eða 'meðganga' þar sem við mælum með kærleika, hlýju og ást, og verður gengið hringinn í kringum tjörnina.
Öllum kórum Reykjavíkurborgar býðst að koma niður við tjörn og taka þátt í athöfninni. Kórarnir syngja tvö lög til að fagna kærleikanum og því sem er mikilvægt fyrir okkur öll og tengir okkur saman. Allir kórstjórnendur eru hvattir til að mæta með sínum kór niður við Iðnó. Hörður Áskelsson stjórnandi Mótettukórsins og Schola cantorum mun síðan sjá um að stjórna kórunum fyrir framan Iðnó við tjörnina.
Allar nánari upplýsingar veitir Svava Kristín Ingólfsdóttir í síma 867 7882 tölvupóstfang: svavaki(hjá)simnet.is, en hún er sérlegur aðstoðarmaður minn við að skipuleggja þátttöku kóranna.
Kærleikskveðja,
Bergljót Arnalds
Nánari upplýsingar og dagskrá:
Lögin eru Við gengum tvö og Hver á sér fegra föðurland.
Mæting er við Austurvöll kl. 18:00 þar sem hátíðin er sett. Klukkan 18:20 leggur Kærleiksgangan af stað frá Austurvelli og gengur framhjá Dómkirkjunni í átt að tjörninni. Þegar Kærleiksgangan er komin að Vonarstræti aftan við Iðnó skulu kórfélagar fara úr göngunni og safnast saman fyrir framan Iðnó. Fulltrúi frá hátíðinni mun taka á móti ykkur og sýna ykkar hvar kórinn á að standa.
Á meðan Kærleiksgangan gengur hringinn í kringum tjörnina stilla kórarnir sér upp fyrir framan Iðnó. Betra er að vera framarlega í göngunni en aftar, upp á að hafa rúman tíma til að stilla sér upp.
Þegar göngunni lýkur mun Hörður Áskelsson gefa tóninn og kórarnir syngja tvö lög.
Kórinn syngur um klukkan 18:45.
Litur hátíðarinnar er rauður og er mælt með að kórinn mæti í rauðu eða í svörtu og hvítu með eitthvað rautt. Þótt ekki væri nema með rauðan trefil eða vettlinga. Slíkt myndi gefa fallega mynd.
Blys og kerti verða seld á staðnum og mun kertafleyting eiga sér stað í lok athafnar. Fallegt væri ef kórmeðlimir sæju sér fært að halda á kertum svo þeir sjáist betur við athöfnina.