Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur var stofnaður 19. september 1995 og á því 20 ára afmæli í haust. Að sjálfsögðu verður haldið upp á afmælið með margvíslegum hætti og ætla kórkonur að gera sér glaðan dag nokkrum sinnum á árinu. Fyrsti afmælisviðburðurinn er sögu- og minjasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 14. febrúar. Þar verður saga kórsins sögð og sýnd í máli, myndum og söng. Sýningin verður opin kl. 13 – 17. Kórinn tekur lagið kl. 14 og 16.
Léttsveitin var stofnuð undir merkjum Kvennakórs Reykjavíkur en árið 2000 var samstarfinu slitið og kórinn varð sjálfstæður. Léttsveitin er stærsti kvennakór landsins en að jafnaði syngja um 120 konur í kórnum. Stjórnandi fyrstu 17 árin var Jóhanna Þórhallsdóttir en haustið 2012 tók Gísli Magna Sigríðarson við. Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar með á píanóið og hefur gert frá upphafi. Gísli og Aðalheiður útsetja flest sem kórinn syngur.
Kórfélagar hlakka til að sjá sem flest áhugafólk um kórstarf og sérstaklega fyrrverandi Léttsveitarkonur.