Næstkomandi sunnudag þann 3. febrúar kl. 15 mun Vox feminae syngja á tónleikum í Háteigskirkju undir merkjum Myrkra músikdaga.
Yfirskrift tónleikanna er "Maríumessa" en á tónleikunum frumflytur kórinn hátíðarmessu í sex þáttum eftir Báru Grímsdóttur, en verkið samdi hún fyrir Vox feminae og Margréti J. Pálmadóttur stjórnanda hans.
Kórinn fékk styrk frá Hlaðvarpanum og tónverkasjóði Gígjunnar til verkefnisins árið 2011 og er nú komið að frumflutningi verksins. Það er mikið fagnaðarefni þegar svo metnaðarfull verk eru samin fyrir kvennakóra og Vox feminae mikill heiður að fá tækifæri til þess að frumflytja verkið á Myrkum músíkdögum.
Auk messunnar mun kórinn flytja verk samin til heiðurs Maríu mey; "Ég vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur og þrjú ólík verk sem öll eru samin við latneska textann "Salve Regina" (Heill þér María) og eru þau eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Javier Busto og Gerhard Deutschmann.
Tónleikarnir á sunnudaginn hefjast kl. 15 og er miðasala við innganginn.