Í nógu að snúast hjá Kvennakór Kópavogs og vortónleikar á næsta leiti
Kvennakór Kópavogs hefur haft í nógu að snúast í vetur. Níunda starfsár kórsins hófst síðastliðið haust með því að nýr kórstjóri, Julian M. Hewlett, tók við stjórnun kórsins en Julian var kórkonum af góðu kunnur þar sem hann hefur verið undirleikari kórsins um árabil.
Á haustönn tók Kvennakór Kópavogs þátt í tveim metnaðarfullum verkefnum. Í nóvember stóð kórinn fyrir tónleikum til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, undir heitinu Hönd í hönd. Þar kom fram fjöldi tónlistarfólks úr Kópavogi sem gaf vinnu sína til styrktar þessu góða málefni og heppnaðist verkefnið með ágætum. Í desember tók kvennakórinn svo þátt í aðventutónleikum, sem haldnir voru á vegum Karlakórs Kópavogs. Kórarnir fltuttu m.a. saman verkið Sjá himins opnast hlið eftir Julian M. Hewlett en það tekur um 25 mínútur í flutningi og er flóknasta tónverk sem kórarnir hafa tekið að sér að flytja til þessa. Því var um að ræða stórt skref framávið fyrir kórana báða og kórfélagar gátu farið stoltir í jólafrí að loknum frábærum aðventutónleikum fyrir fullu húsi í Kópavogskirkju.
Í janúar hófust æfingar að nýju og fór þá í hönd langt æfingatímabil en hápunktur þess voru æfingabúðir sem haldnar voru á hótel Hlíð í Ölfusi, í helgina 6.-7. mars. Þema æfingabúðanna var Hálar sem ál og því klæddu kórfélagar sig í heimatilbúna ál-búninga á laugardagskvöldinu og slettu ærlega úr klaufunum um leið - eins og sjá má glögglega á meðfylgjandi mynd. Í marsmánuði hélt kórinn einnig skemmtikvöld með sama þema í Smáranum í Kópavogi og bauð til sín þremur kórum, Kvennakórnum Ym frá Akranesi, Kvennakór Suðurnesja og Karlakór Kópavogs. Úr varð hin besta skemmtun þar sem söngurinn var í hávegum hafður.
Nú líður að því að tímabært verði að flytja á tónleikum, afrakstur æfinga kórsins síðan í janúar. Kvennakór Kópavogs mun því halda vortónleika í Aðventkirkjunni við Ingólfsstræti sunnudaginn 25. apríl kl. 16:00. Ýmis létt og skemmtileg lög verða á efnisskránni, þ.a.m. nokkur eftir Sigfús Halldórsson. Aðgangseyri verður stillt í hóf en miðaverð er einungis 1000 kr. fyrir áheyrendur eldri en 12 ára.
Sjáumst þá!
Kvennakór Kópavogs