Um miðnættið þann 23. febrúar renndi rúta með kvennakórnum Vox feminae í hlað Þjónustumiðstöðvarinnar í Munaðarnesi. Út í kuldann og þreifandi náttmyrkrið streymdu kórkonurnar og hófust handa við koma öllu sínu hafurtaski í réttu bústaðina. Flestar skelltu sér auðvitað í heitu pottana fyrir háttinn. Laugardagurinn rann upp heiðskír og fagur. Morgunninn nýttist vel við raddæfingar á Stabat Mater, nýju verki sem tónskáldið John A. Speight hefur samið fyrir Margréti J. Pálmadóttur og Vox feminae, en stefnt er að frumflutningi á þessu ári. Eftir hádegið kallaði Margrét svo allan kórinn saman til að æfa þetta dramatíska verk sem er túlkun á tilfinningum Maríu guðsmóður við kross Jesú. Það er einstök upplifun að sitja saman og tosa nýsamið verk upp úr nótunum og heyra hljóma þess í allra fyrsta skiptið. Að krefjandi kóræfingu lokinni tóku við allt öðruvísi æfingar þar sem æfð voru af kappi atriði fyrir kvöldvöku. Kórkonur mættu í matinn í sínu fínasta útilegupússi. Sköpunarkraftur og listrænt eðli kórkvenna fékk góða útrás í velheppnuðu kvöldvökusprelli og svo var trallað, tjúttað og buslað fram eftir nóttu. Á sunnudeginum var enn æft af kappi fram yfir hádegi. Það voru sælar kórkonur sem fóru heim aftur með rútunni eftir endurnærandi vist í Borgarfirðinum.