Hönd í hönd – skemmtun til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs
Á vordögum kom upp sú hugmynd hjá kórkonum í Kvennakór Kópavogs hvort ekki væri hægt að gera eitthvað gagn í þessu efnahagslega fárviðri sem gengur yfir landann. Söngurinn gefur okkur í Kvennakór Kópavogs aukna orku, hressir, bætir og kætir andlega og líkamlegan líðan og þá orku vildum við nýta til að láta gott af okkur leiða. Ákveðið var að blása til skemmtunar með þátttöku ýmissa flytjenda úr Kópavogi og afhenda síðan Mæðrastyrksnefnd Kópavogs ágóðann af skemmtuninni, en þar er þörfin mikil þessa dagana.
Hönd í hönd er nafnið sem valið var á skemmtunina og er hún nefnd eftir verkefni sem varð til þegar Kópavogsbær, prestar í Kópavogi, Menntaskólinn í Kópavogi, heilsugæslan, Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs tóku höndum saman til að styðja við Kópavogsbúa í því erfiða ástandi sem skapast hefur við hrun fjármálamarkaðarins.
Skemmtunin verður haldin sunnudaginn 8. nóvember kl. 20.00 í Hjallakirku en þangað höfum við stefnt hátt í 100 manns sem ætla að leggja hönd á plóginn við að skapa skemmtilega stemmingu með okkur. Það er frábært hvað vel var tekið í erindi okkar þegar leitað var til aðila með þátttöku og ljóst er að mikill samhugur er hér í bæjarfélaginu. Allir sem koma að þessari skemmtun gefa vinnu sína og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Þeir sem koma fram á skemmtuninni eru:
Sr. Íris Kristjánsdóttir sóknarprestur í Hjallakirkju
South River Band; Ólafur Þórðarsson og félagar
Kvennakór Kópavogs
Karlakór Kópavogs
Leikfélag Kópavogs
Rannveig Guðmundsdóttir fyrrverandi alþingismaður
Hljóðfæraleikarar úr Skólahljómsveit Kópavogs
BERG söngsystur
Aðeins verður um þessa einu skemmtun að ræða og því betra fyrir þá sem vilja tryggja sér miða að ná sér í þá í forsölu. Miða má panta og kaupa hjá Kvennakór Kópavogs í síma 821 6624 (Jófríður) og 862 2022 (Dröfn) eða á netfangið kvennakorkopavogs(hja)gmail.com. Miðaverð er kr. 3000.- og forsala á miðum verður til 5. nóvember.
Í Kópavogi er starfrækt Mæðrastyrksnefnd sem var stofnuð af Kvenfélagasambandi Kópavogs 1968 og starfar innan vébanda þess. Að sambandinu standa kvenfélögin Dimma, Freyja og Kvenfélag Kópavogs og það eru samtals 12 konur frá þeim félögum sem leggja fram alla sjálboðavinnu í sambandi við starfsemi nefndarinnar. Tilgangur nefndarinnar er líknarstarfsemi, að styrkja bágstaddar mæður og aðra sem á hjálp þurfa að halda eftir því sem aðstæður leyfa. Mæðrastyrksnefndin er til húsa í Fannborg 5 og er með fataúthlutun einu sinni í viku á þriðjudögum frá kl. 16 til 18. Á sama stað og tíma er einnig tekið á móti fatnaði og hvetjum við bæjarbúa til að kíkja í skúffur og skápa og finna til og afhenda þar, þvegið og flokkað. Margt smátt gerir eitt stórt.
Við hvetjum alla til að sýna samstöðu mæta og eiga skemmtilega kvöldstund með okkur öllum og styrkja gott málefni í leiðinni.
Samstöðukveðjur frá Kvennakór Kópavogs
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs