Freyjukórinn í Borgarfirði hefur undanfarnar vikur staðið í stífum æfingum fyrir geisladiskaupptökur. Rétt fyrir skömmu skelltu þær sér í hljóðver og tóku upp. Freyjukórinn stefnir að því að gefa út nýjan geisladisk með vorinu og við hlökkum til þess að frétta meira af honum.
Fréttatilkynning frá Freyjukórnum í Borgarfirði
Laugardaginn 11. mars flykktust konur af öllu Borgarfjarðarsvæðinu til Reykjavíkur, nánar tiltekið í Rauðagerði, húsnæði FÍH. Freyjukórinn var þar á ferð og mætti í salinn fyrir kl. 10:00 og hófust upptökur um kl. 11:00 og stóðu til kl 19:00. Eins tíma matarhlé var gert til að skreppa á Heitt og kalt á Grensásveginum auk stuttra pása inn á milli.
Kerlurnar voru hlaðnar nornadrykkjum fyrir hálsinn, ávöxtum og hálstöflum. Skipaðir voru einkaþjálfarar sem héldu uppi reglubundnum æfingum fyrir kórfélaga.
Stjórnandi kórsins Zsuzsanna Budai stýrði kórnum að sinni einstöku list. Haukur Gíslason vafði fungur og spilaði á kontrabassa og Steinunn Árnadóttir spilaði á flýgil.
Þegar líða tók að síðari hluta virtust allar þyrlur landsins vera á æfingaflugi fyrir húsnæðinu og einhver óvenjulegur hljómur var farinn að koma úr flyglinum. Eftir að hafa varið hluta tímans í að finna lækningu á flyglinum og að lokka þyrlurnar frá staðnum tókst að halda áfram og taka upp þau lög sem stefnt var á í upphafi.
Upptökustjóri var Vilhjálmur Guðjónsson. Það vakti almenna kátínu kórfélaga þegar fimm sekúndur voru liðnar frá flutningnum og þumalinn lyftist upp... eins var það ekki eins gott þegar hann hélt áfram að horfa á tækin... greinilega ekki sáttur!
Sem sagt um 30 kórfélagar Freyjukórins voru sáttir með daginn og bíða nú spenntir eftir að fá að hlusta á árangurinn (en um leið svolítið kvíðnir!).
Freyjukórinn í Borgarfirði
netfang: husafell(hjá)husafell.is