Í nógu er að snúast þessa dagana hjá Kvennakór Kópavogs. Í byrjun mars fóru kórfélagar í æfingabúðir austur fyrir fjall og þöndu raddböndin heila helgi. Hápunktur ferðarinnar var þó hátíðarkvöldverður og kvöldvaka sem var að venju mjög skemmtileg. Þema kvöldsins var rokk og ról og brugðu kórkonur sér í margs konar líki. Hinar virðulegustu konur breyttust í harðsvíraða rokkara sem slógu um sig með óvönduðu orðbragði og grófu látbragði. Í hópnum mátti einnig finna pönkara með gaddaólar og barmmerki og afar penar konur sem klæddust hringskornum pilsum og doppóttum skyrtum í anda Grease.
Heilmikið er framundan hjá kórnum. Dagana 29. apríl til 1. maí 2011 ætlar hluti kórkvenna á Landsmót Kvennakóra á Selfossi en þar koma saman fjöldi kvennakóra allstaðar að af landinu. Vortónleikar kórsins verða svo haldnir þann 17. maí n.k. í Hörðuvallaskóla þar sem flutt verður lífleg og skemmtileg dagskrá og verður þar tvímælalaust um að ræða frábæra skemmtun og góða stemmningu. Botninn verður svo sleginn í vetrarstarfið með söngferðalagi. Þann 10. júní n.k. leggur Kvennakór Kópavogs land undir fót og er stefnan tekin á Leeds í Englandi. Þar er starfræktur vinakór Kvennakórsins sem kallar sig Good in parts og munu kórkonur njóta gestrisni breskra vina meðan á dvölinni stendur.
Kvennakór Kópavogs á tíu ára afmæli á næsta starfsári. Núverandi kórstjóri lætur af störfum í vor og þess vegna leitar kórinn nú að sterkum og hressum stjórnanda fyrir næsta vetur. Mikil gleði og bjartsýni ríkir í Kvennakór Kópavogs og horfa kórkonur kátar fram á næsta áratug.