Kvennakórinn Vox feminae heilsar vori miðvikudaginn 6. maí kl. 20 í Hafnarborg með flutningi tónlistar frá 16. og 17. öld undir yfirskriftinni „Þar sýprus grær“. Fluttir verða madrigalar og söngvar frá ýmsum löndum, þar á meðal eftir Claudio Monteverdi, Passerau, Giovanni Gastoldi, John Dowland, Thomas Morley, Orlando Gibbons og O. Vecchi.
Madrigalar eru fjölradda veraldleg sönglög og má rekja uppruna þeirra til tíma endurreisnarinnar á Ítalíu, er aðalsmenn tóku að ráða tónlistarmenn í þjónustu sína. Við ítalskar hirðir störfuðu þannig litlir sönghópar sem sungu madrigala fyrir húsbændur og gesti þeirra. Smám saman breiddist þetta tónlistarform út og náði miklum vinsældum og þá einkum á Englandi. Flest ljóðanna fjalla um ástina í sinni margbreytilegu mynd, gleði, unaði, angist, söknuði og kvöl.
Á tónleikunum koma fram ásamt Vox feminae, einsöngvarar úr röðum kórfélaga, Símon Ívarsson gítarleikari og Marion Herrera hörpuleikari.
Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét J. Pálmadóttir.
Miðasala hjá kórfélögum og í síma 863 4404.