Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar verða 10. og 11. maí
Eins og jafnan á vorönn er í mörg horn að líta hjá Kvennakór Garðabæjar en aðalkrafturinn fer í að æfa fyrir veglega vortónleika sem haldnir verða 10. og 11. maí næstkomandi. Að þessu sinni verða þjóðlög í aðalhlutverki og frá hinum ýmsu þjóðlöndum, s.s. Færeyjum, Finnlandi, Armenínu, Bólivíu, Indónesíu og Spáni svo eitthvað sé nefnt. Seinni hluti tónleikanna verður tileinkaður þekktari lögum innlendum og erlendum. Nánari upplýsingar um stað og tímasetningu tónleikann munu birtast hérna á vef Gígjunnar og einnig á vefsetri Kvennakórs Garðabæjar þegar nær dregur.
Árshátíð Kvennakórs Garðabæjar var haldin með stæl
Laugardaginn 21. mars hélt kórinn glæsilega árshátíð í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, með þátttöku langflestra kórkvenna og maka. Stjórn kórsins sá um alla skipulagningu hátíðarinnar, auk þess sem hún mætti galvösk í eldhús staðarins snemma dags til þess að undirbúa hátíðina. Matreiddar voru steikur af lömbum og svínum, með dýrindis fyllingum, sem hreinlega ærðu bragðlauka veislugesta síðar um kvöldið. Í vikunni hafði kórkonum verið úthlutað uppskriftum af forréttum, meðlæti og eftirrétti, sem þær matreiddu heima og mættu með á árshátíðina. Óhætt er að fullyrða að erfitt myndi að “toppa” þessa þríréttuðu veislumáltíð enda mátti heyra vellíðunarstunur veislugesta að henni lokinni.
Öll umgjörð hátíðarinnar var veisluföngunum samboðin, salurinn skreyttur af einstakri alúð og smekkvísi og til að kóróna allt saman var veislustýran, Lísa skvísa, eins og kvikmyndastjarna, sprottin út úr myndum gulláranna, falleg og fjörug í rauðum tjullkjól og stóð sig með þeim eindæmum að líkast til festist hún í faginu. Þegar þessi kór hefur einu sinni uppgötvað sérstaka hæfileika er ekki undankomu auðið. Um það geta “stílistar” kórsins borið svo dæmi sá nefnt.
Engin almennileg árshátíð er án skemmtiatriða en þau voru eins og annað, heimagerð. Af nógu var að taka enda hafa kórkonur séð hver annarri fyrir ærlsafullum, heimatilbúnum skemmtiatriðum í æfingabúðum í Skálholti ár hvert. Nú var komið að því að leyfa mökunum að njóta en auk þess flutti ein kórkona minni karla. Að lokum voru græjurnar þandar og dansað hvíldarlítið fram á nótt.