Sunnudaginn 10. maí næst komandi mun Kvennakór Garðabæjar halda sérstaka afmælistónleika í tilefni af því að 15 ár eru frá stofnun kórsins.
Tónleikarnir verða í Guðríðarkirkju og hefjast kl. 16.00.
Strengjatríó leikur með Kvennakór Garðabæjar
Efnisskrá tónleikanna verður, að vanda, einkar fjölbreytt þar sem flutt verða klassísk verk í bland við léttari tónsmíðar. Í nokkrum verkanna leikur strengjatríó með kórnum, skipað þeim Hlín Erlendsdóttur, fiðluleikara, Herdísi Önnu Jónsdóttur, víóluleikara og Helgu Björgu Ágústsdóttur, sellóleikara en píanóleikari kórsins er Sólveig Anna Jónsdóttir.
Eldri kórfélagar taka lagið
Í tilefni að þessum merku tímamótum munu um þrjátíu fyrrverandi kórkonur sameinast kórnum í nokkrum lögum en þau lög hafa verið á efnisskrá kórsins jafnt og þétt frá stofnun.
„Já mig langaði til þess að nota þetta tækifæri til að sameina núverandi og fyrrverandi kórkonur í söng og leik og ljúka þannig með táknrænum hætti fimmtán skemmtilegum árum í söng og leik með frábærum konum. Rúmlega þrjátíu konur hafa þegar boðað komu sína svo þetta verður einstök stund í Guðríðarkirkju og hlökkum við mikið til” segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, kórstjóri.
Ingibjörgu Guðjónsdóttir sópransöngkona,
stofnandi og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar
Miðasalan er hafin
Tónleikarnir verða eins og áður sagði í Guðríðarkirkju, Kirkjustétt 8 í Grafarholti og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð í forsölu er 2500 krónur og er miðasala hjá kórkonum og á netfanginu kvennakorgb@gmail.com. Aðgöngumiðar verða seldir við innganginn á 3000 krónur meðan húsrúm leyfir.
Kaffi og kruðerí
Að venju bjóða kórkonur tónleikagestum upp á kaffi og kruðerí að tónleikum loknum.
„Sú skemmtilega hefð hefur skapast síðustu ár að bjóða tónleikagestum upp á kaffi og eitthvað sætt með’í í safnaðarsal kirkjunnar. Þessari samverustund vilja kórkonur alls ekki sleppa því ekkert er betra en að fá að deila með sínum nánustu þeirri góðu tilfinningu sem fylgir því að “uppskera eins og maður sáir” enda liggur mikil og gleðileg vinna að baki tónleikum sem þessum” segir Ingibjörg kórstjóri að lokum.
Kvennakór Garðabæjar á 15 ára afmælisárinu
Þú finnur frekari upplýsingar um Kvennakór Garðabæjar á Facebook síðu kórsins: https://www.facebook.com/kvennakorgb