Kvennakór Garðabæjar heldur vortónleika mánudaginn 15. maí kl. 20.00 í Digraneskirkju. Stjórnandi kórsins er Ingibjörg Guðjónsdóttir. Kristinn Örn Kristinsson píanóleikari kórsins sér um undirleik, en auk hans koma fram fiðluleikararnir Júlíana Kjartansdóttir og Sigurlaug Eðvaldsdóttir, ásamt Helgu Björgu Ágústsdóttur sellóleikara.
Fréttatilkynning frá Kvennakór Garðabæjar
Kvennakór Garðabæjar hefur fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar og heldur nú vortónleika 6. árið í röð, að vanda undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur, sópransöngkonu. Söngskráin er sem fyrr metnaðarfull með hátíðlegum blæ enda mörg verkanna af andlegum toga og til þess fallin að færa áheyrendum gleði og upplyftingu.
Tónleikarnir í ár verða haldnir mánudaginn 15. maí kl. 20.00 í Digraneskirkju. Kristinn Örn Kristinsson píanóleikari kórsins sér um undirleik, en auk hans koma fram fiðluleikararnir Júlíana Kjartansdóttir og Sigurlaug Eðvaldsdóttir, ásamt Helgu Björgu Ágústsdóttur sellóleikara.
Miðaverð er 1.800 kr. við innganginn en 1.500 kr. í forsölu og fyrir lífeyrisþega. Forsala tónleikamiða er í Bókabúðinni Grímu, Garðatorgi, hjá kórkonum og á netfanginu kvennakor@kvennakor.is. Frítt er fyrir 15 ára og yngri.