Laugardaginn 7. desember kl. 16:00 stendur Kvennakór Akureyrar fyrir fjáröflunartónleikum í Akureyrarkirkju til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar.
Nú fer í hönd sá tími ársins sem fólk finnur hvað sárast fyrir skorti og er ástæða til að hvetja þá sem eru aflögufærir að láta gott af sér leiða. Stór hluti skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar Akureyrar eru barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar sem munu í auknum mæli leita sér aðstoðar hjá nefndinni þegar jólin nálgast. Kvennakór Akureyrar hvetur alla sem vettlingi geta valdið að taka nú höndum saman og styrkja Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Um leið og tónleikagestir láta gott af sér leiða fá þeir að eiga notalega stund og hlýða á ljúfa tónlist.
Þetta verða 11. tónleikarnir sem haldnir eru til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og að þessu sinni fær Kvennakór Akureyrar til liðs við sig tvo aðra kvennakóra. Annar þeirra er Kvennakórinn Embla en hann er skipaður konum frá Akureyri og nágrannabyggðum. Kórinn var stofnaður árið 2002 af stjórnandanum, Roar Kvam og undirleikari hjá kórnum er Helga Kvam. Þriðji kórinn er Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði og var hann stofnaður haustið 2010 af þremur konum í Skagfirði. Kórstjóri er Sólveig Sigríður Einarsdóttir og undirleikari Rögnvaldur Valbergsson. Stjórnandi og undirleikari Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson.
Kórarnir verða hver með sína dagskrá en syngja saman í lokin. Það má því áætla að á annað hundrað konur sameini raddir sínar í kirkjunni þennan dag. Þetta verður því einstakur viðburður þar sem þessir kórar hafa ekki áður sungið saman.
Á efnisskránni verða íslensk og erlend lög af ýmsu tagi og með hátíðlegu og jólalegu ívafi.
Allar kórkonur, stjórnendur, undirleikarar og aðrir sem vinna að undirbúningi og framkvæmd tónleikanna gefa vinnu sína svo allur ágóði rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og verður afhentur fulltrúa nefndarinnar að tónleikum loknum.
Aðgangseyrir er 2500 kr. en frítt fyir 12 ára og yngri. Miðar verða seldir við innganginn, frjálsum framlögum verður einnig veitt viðtaka, en ekki er tekið við greiðslukortum.