Laugardaginn 12. maí mun Kvennakór Hafnarfjarðar syngja inn sumarið með tónleikum sem bera yfirskriftina Allir vindar blunda. Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt, allt frá klassískum perlum tónlistarsögunnar til íslenskrar dægurtónlistar. Ferðast verður á vængjum ástarinnar frá Bandaríkjunum til meginlands Evrópu, staldrað við í Frakklandi og hlustað á franska kvikmyndatónlist og að lokum verður takturinn sleginn að hætti gyðinga og Afríkubúa.
Kvennakór Hafnarfjarðar er skipaður tæplega 50 konum og er stjórnandi kórsins Erna Guðmundsdóttir. Píanóleikari er Antonia Hevesi en auk hennar leika með kórnum Dean Ferrell á bassa, Jón Björgvinsson á slagverk og Tristan Willems á klarinett. Þrír ungir einsöngsnemendur úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, þær Dagný Björk Gísladóttir, Elfa Erlendsdóttir og Sandra Lind Þorsteinsdóttir koma einnig fram með kórnum.
Tónleikarnir verða haldnir í Hásölum við Strandgötu laugardaginn 12. maí kl. 16:00. Miðaverð er 2.000 krónur og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Boðið er upp á kaffi og konfekt í hléi.
www.kvennakorinn.org