Það er mikið um að vera í Domus Vox, sönghúsi Margrétar J. Pálmadóttur, þessa dagana því kórsysturnar þar efna til Maraþontónleika í Grensáskirkju nk. sunnudag 6. mars. Dagskráin hefst með messu í Grensáskirkju kl. 11, Stúlknakór Reykjavíkur leiðir sönginn. Að messu lokinni hefst samfelld dagskrá, með fallegri tónlist tengdri kærleika og trú, í kirkjunni og safnaðarheimilinu, Þar koma fram Margrét J. Pálmadóttir söngstjóri, Stúlknakór Reykjavíkur, kvennakórarnir Cantabile og Vox feminae, Hanna Björk Guðjónsdóttir einsöngvari, Guðrún Árný Guðmundsdóttir kórstjóri ásamt píanóleikurunum Antoníu Hevesi og Halldóri Smárasyni.
Yfirskrift tónleikanna er Bollufjör Domus Vox, því frá kl. 13:30 - 16:30 verður bollukaffi og markaðsstemning í safnaðarheimili kirkjunnar. Tónleikagestum gefst kostur á að njóta sönggleðinnar sem ríkir í þessum stóra, söngelska hópi og að gera góð kaup á markaðnum. Bollukaffi er innifalið í mjög fjölskylduvænu miðaverði. Allar kórkonur eru hvattar til að gera sér og sínum glaðan dag. Miðar fást við innganginn.