Vortónleikar Kvennakórs Hornafjarðar verða haldnir í Hafnarkirkju 20. maí kl. 20.00. Stjórnandi kórsins er Svavar Sigurðsson og undirleikari er Jónína Einarsdóttir. Lagavalið er mjög fjölbreytt, sungið verður m.a. á íslensku, ensku, spænsku, búlgörsku og sænsku. Kvennakór Hornafjarðar hefur haft nóg að gera að undanförnu við að undirbúa Þýskalandsferð. Kórinn dvaldi í söngbúðum á Hala í Suðursveit, þar sem æft var að kappi. Haldnir verða tónleikar í Háteigskirku kl. 20.00 11. júní og flogið út til Þýskalands 12. júní. Kórinn munu dvelja í bænum Soltau í Þýskalandi og keyra út frá honum til allra átta, tónleikar verða haldnir í Hamborg og í fleiri bæjum í grend við Soltau. Nú er vinnan fyrir landsmótið sem haldið verður á Hornafirði síðustu helgi í apríl 2008 komin á fullt skrið svo í nógu er að snúast hjá Kvennakór Hornafjarðar. Send verða bréf um mótið til allra í byrjun næsta starfsárs.