Tónleikarnir bera yfirskriftina Valsar og Vínarljóð og eins og nafnið gefur til kynna verður þar flutt tónlist sem á rætur sínar að rekja til Vínarborgar, svo sem hluti af Liebeslieder Waltzer op. 52 eftir Johannes Brahms, auk annarra skemmtilegra vínarljóða. Einnig verða fluttir óperukórar úr þekktum óperum eftir Mozart, Rossini, Verdi og fleiri. Yfirbragð tónleikanna verður í léttum dúr og mun andi Vínarborgar svífa yfir vötnum. Listrænn stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir. Verð aðgöngumiða í forsölu er kr. 2.500 og eru miðar til sölu hjá kórfélögum og í síma 863 4404. Ef keypt er við innganginn kostar miðinn kr. 3.000. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30.
Kvennakórinn Vox feminae heldur tónleika í Hafnarborg í Hafnarfirði föstudaginn 9. maí kl. 20:30
Flytjendur á tónleikunum eru auk Vox feminae sópransöngkonurnar Auður Gunnarsdóttir og Xu Wen, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari. Listrænn stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir. Vox feminae fagnar nú sínu fimmtánda starfsári og hefur af því tilefni staðið fyrir veglegri og glæsilegri tónleikadagskrá, sem hófst með frumflutningi stórverksins Stabat Mater eftir John A. Speight í nóvember. Á komandi hausti er síðan fyrirhugað samstarf með karlakórnum Fóstbræðrum þar sem kórarnir munu stilla saman strengi sína á sameiginlegum tónleikum, en þeir tónleikar munu marka lok afmælisárs Vox feminae.