Sunnudaginn 14. október kl. 16:00 mun Kvennakór Kópavogs, í samstarfi við Digraneskirkju, standa fyrir tónleikum til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Listamennirnir sem koma fram á tónleikunum eru Kvennakór Kópavogs og Stúlknakór Kópavogs ásamt stjórnanda sínum Gróu Hreinsdóttur og Huldu Maríu Halldórsdóttur sem syngur á táknmáli, Karlakór Kjalnesinga, nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs, Gissur Páll Gissurarson, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bogomil Font og Áslaug Helga Hálfdánardóttir.
Ræðumaður verður sr. Gunnar Sigurjónsson sóknarprestur í Digraneskirkju.
Þetta er fjórða árið í röð sem Kvennakór Kópavogs stendur fyrir góðgerðartónleikum undir yfirskriftinni Hönd í hönd. Allir listamenn og aðrir sem koma að skipulagningu og framkvæmd tónleikanna gefa vinnu sína og miðaverð rennur því óskipt til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs. Tónleikarnir verða haldnir í Digraneskirkju og aðgangseyrir er 2.500 kr.
Hægt er að panta miða með því að senda póst á netfangið hondkk@gmail.com. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn meðan húsrúm leyfir.