Kvennakórinn Kyrjurnar var stofnaður árið 1997 og fagnaði því 15 ára afmæli á árinu 2012. Haldið var upp á afmælið með tónleikaferð til Tíról í Austurríki 14. - 21. júní 2012. Bændaferðir sáu um skipulag ferðarinnar og var það í alla staði mjög gott. Flogið var til München og síðan farið með rútu til Seefeld, þar sem kórinn hafði fast aðsetur. Gist var á mjög góðu hóteli, Karwendelhof.
Kórinn söng á Sumartónleikum Seefeld, en árlega eru þar tónleikar á hverjum föstudegi frá júní og fram í september. Tónleikaröðin árið 2012 bar yfirskriftina "Bunt wie ein Regenbogen" (litríkt eins og regnboginn). Tónleikarnir fóru fram í kirkju St. Oswald í Seefeld. Hún er mjög falleg og góður hljómur í henni. Á efnisskrá voru m.a. gömul íslensk þjóðlög, lög við texta Halldórs Laxness og lög úr þekktum söngleikjum. Kórinn söng einnig í kaþólskri messu í sömu kirkju og var það mikil upplifun fyrir kórkonur.
Farið var í dagsferðir út frá Seefeld, sem allar tókust vel. Farið var m.a. til Brixen á Ítalíu, í Gramai-Alm þjóðgarðinn og upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze. Að sjálfsögðu var lagið tekið á hinum ýmsu stöðum við góðar undirtektir ferða- og heimamanna.
Heimasíða Kyrjanna er http://kyrjurnar.123.is/