O magnum mysterium
Tónleikar Vox feminae á allra heilagra messu:
Kristskirkja Landakoti, fimmtudaginn 4. nóvember kl. 20.30
Reykholtskirkja í Borgarfirði, við og eftir messu sunnudaginn 7. nóvember kl. 14.00
Hafnarfjarðarkirkja, miðvikudaginn 10. nóvember kl. 20.30
Lífið er leyndardómur. Allra heilagra messa er Vox feminae sérstaklega hjartfólgin því þá hefur kórinn jafnan haldið dulmagnaða tónleika. Á þeim árstíma skynjum við sterkt sagnaarf kynslóðanna um að einmitt þá séu skilin milli heimanna þynnst.
Að þessu sinni hefur Margrét J. Pálmadóttir, listrænn stjórnandi kórsins, valið til flutnings undurfögur trúarleg verk frá endurreisnartímanum, m.a. eftir tónskáldin Palestrina, Orlando di Lasso og Tomás Luis de Victoria, auk tveggja sálma Þorkels Sigurbjörnssonar sem bera stílbragð liðinna tíma. Jafnframt mun Stefán S. Stefánsson ljá kórnum spuna sinn á saxófón við sum verkanna.
Slíka tónlist er ekki hægt að flytja án undirbúnings. Septembermánuður fór í nótnastagl en fyrstu helgina í október brugðum undir okkur betri fótunum og brunuðum í æfingabúðir á þeim kyngimagnaða stað Hellnum á Snæfellsnesi. Hauststemningin, með allri sinni litadýrð bæði á himni sem jörðu, var nær ólýsanleg og allur viðgjörningur staðarhaldara, bæði þessa heims og annars, var til mikils sóma. Við æfðum langt fram á föstudagskvöldið og frá morgni til kvölds á laugardeginum, nema hvað við gengum um miðjan dag í blíðviðrinu út á Arnarstapa.
Kvöldvakan var með þjóðlegu ívafi þar sem svipir liðinna tíma reikuðu um sali. Þar komu m.a. Bárður Snæfellsáss, Kolbeinn Jöklaskáld og Þórður á Dagverðará við sögu og síðast en ekki síst astraltertu gubbandi geimverur. En hætta ber hverjum leik þá hæst hann ber og allar fórum við snemma í háttinn til þess að vera nú með á nótunum daginn eftir.
Seinnipart sunnudagsins kvöddum Snæfellsnesið útsungnar og með söknuði og keyrðum aftur inn í hversdagslegan veruleikan hér fyrir sunnan.
Nú er uppáhalds hátíðin okkar að ganga í garð og töfrarnir á næsta leiti, það eru dásamlegir tónleikar framundan. Ef þið viljið njóta þeirra með okkur má nálgast miða í Domus Vox Laugarvegi 116 (sími: 511 3737), hjá kórfélögum og við innganginn.
Að tónleikunum loknum mun Margrét kórstjóri árita da capo, nýútkomna ljósmyndabók Vox feminae.