Kvennakórinn Seljur verður með vortónleika í Seljakirkju laugardaginn 9. maí kl. 16:00.
Vorið er í algleymingi hjá Seljunum þetta árið, enda veitir ekki af að kalla á það. Efnisskráin er fjölbreytt og skemmtileg, þar er m.a. Ríó Tríó lagasyrpa sem Aðalheiður Þorsteinsdóttir hefur útsett fyrir kórinn.
Hljóðfæraleikarar með kórnum verða Arnhildur Valgarðsdóttir á píanó, Matthías Stefánsson fiðlu- og gítarleikari og Birgir Bragason á kontrabassa. Kórstjórn er að vanda í höndum Svövu Kristínar Ingólfsdóttur söngkonu, auk þess sem hún syngur einsöng með kórnum.
Kórinn hefur stækkað í vetur og telur nú um 35 konur sem hafa æft saman í vetur. Seljurnar þakka þeim sem styrkt hafa starfsemi kórsins og bjóða alla velkomna á ákall til vorsins.
Aðgangseyrir er 1.500 kr. en frítt fyrir 15 ára og yngri.