Kóramótið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þann 23. október þótti takast með eindæmum vel og var það mál margra að gera þyrfti slíkt kóramót að árlegum viðburði.
24 kórar tóku þátt í mótinu og áætlað var að um 700 manns hafi verið að syngja í Hofi þennan dag. Áhorfendur voru einnig fjölmargir og líklega um 600 þegar allir kórarnir sungu saman í lokin.
Dagskráin fór fram á stóra sviðinu og var salurinn, Hamraborgin, opinn gestum og gangandi meðan á dagskránni stóð.
Á mótinu komu fram 8 kirkjukórar, 3 kórar eldri borgara, 4 aðrir blandaðir kórar, 5 karlakórar og 4 kvennakórar.
Kvennakórarnir sem fram komu eru:
Kvennakórinn Embla, Akureyri
Salka kvennakór, Dalvík
Kvennakór Akureyrar, Akureyri
Iðnu Lísurnar, Húsavík
Kórarnir komu frá starfssvæði Eyþings sem er landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi frá Fjallabyggð að vestan að Langanesbyggð að austan, en innan Eyþings eru 13 sveitarfélög með liðlega 29.000 íbúa.
Styrktaraðilar voru Menningarráð Eyþings, Rarik og Samband íslenskra karlakóra.
Kvennakór Akureyrar prýðir myndina með þessari frétt.