Nú er bara vika í landsmótið okkar og því er tímabært að huga að því hverju má alls ekki gleyma að pakka niður í töskuna. Fyrst skal nefna kórdressið, síðan er það vinnuheftið góða með öllum nótum mótsins. Fyrir óvissuferðina er nauðsynlegt að hafa hlýjan útivistarfatnað og góða skó og hvetjum við alla til að mæta í hana – því Jórur lofa frábærri ferð. Partýdress fyrir laugardagskvöldið er gott að hafa með en því má einnig redda á Selfossi í hinum mörgu verslunum sem þar eru. Að sjálfsögðu verður góða skapið með í för og einnig verður nóg af því á staðnum.
Á heimasíðu Jórukórsins www.jorukorinn.is og hér á gigjan.is eru allar upplýsingar um mótið. Þar er t.d. dagskrá mótsins, tónleikaskrá og skipting kóra á milli tónleikastaða á laugardeginum, endilega hvetjið ykkar fólk til þess að taka sér bíltúr á Selfoss þessa helgi og mæta á flotta tónleika. Einnig er þar matseðill mótsins og ef einhverjar sér óskir eru með matinn á hátíðarkvöldverðinum hafið þá samband við Jórukonur og þær munu reyna að koma til móts við þær. Á heimasíðu Jórukórsins er einnig hægt að hlusta á landsmótslagið, bæði með og án stórsveitar og einnig hverja rödd fyrir sig.
Skráningu á mótið er að ljúka og eru tæplega 600 konur skráðar til leiks og því er þetta stærsta landsmót sem haldið hefur verið.
Við hittumst því hressar og kátar næsta föstudag og leggjumst allar á bæn með það að veðrið lagist eitthvað og vorið fari að koma.