Tveir kvennakórar sameinast í söng á aðventunni
Kvennakór Garðabæjar æfir nú af fullum krafti fyrir sameiginlega aðventutónleika með Kvennakór Hafnarfjarðar. Er þetta liður í því að gera tíunda starfsár kórsins sem veglegast en kórinn fagnar tíu ára afmæli 4. september á næsta ári og verða því ýmsir árlegir viðburðir stærri í sniðum en ella.
Kórarnir halda tvenna tónleika í upphafi aðventunnar:
þá fyrri í Digraneskirkju í Kópavogi mánudaginn 30. nóvember kl. 20.00
og þá síðari í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði miðvikudaginn 2. desember kl. 20:00
Á sameiginlegri efnisskrá kóranna eru nokkrar sígildar jólaperlur, s.s. Nóttin var sú ágæt ein og Hin fyrstu jól. Auk þess sameinast kórarnir í undurfögrum spænskum og suður-amerískum jólalögum, útsettum fyrir kvennaraddir, hörpu, gítar og marimbu. Þá koma kórarnir fram hvor í sínu lagi og syngja eigin söngdagskrá og mun Kvennakór Garðabæjar m.a. endurtaka fjöruga jólasyrpu sem frumflutt var í fyrra og heillaði tónleikagesti.
Kórarnir héldu fyrstu sameiginlega æfingu 24. október síðast liðinn og stóð hún hátt í sex klukkustundir. Samhljómur kóranna lofar góðu enda snjallir stjórnendur að verki, þær Erna Guðmundsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar og Ingibjörg Guðjónsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar. Píanóleik annast Sólveig Anna Jónsdóttir sem spilað hefur með Kvennakór Garðabæjar undanfarin ár.
Tónleikar Kvennakórs Garðabæjar hafa ávallt verið afar vel sóttir og á kórinn nú tryggan hóp áheyrenda. Er það von kórkvenna og stjórnandans að álitlegur liðsauki Kvennakórs Hafnarfjarðar verði til þess að enn fjölgi þeim sem vilja njóta órafmagnaðra og hátíðlegra aðventutónleika í fallega hljómandi kirkjum.
Eins og undanfarin ár er forsala aðgöngumiða hjá kórkonum en einnig er hægt að senda póst á póstfang Kvennakórs Garðabæjar kvennakor(hja)kvennakor.is. Velunnurum er bent á að fylgjast með starfi Kvennakórs Garðabæjar á vefsetri kórsins.