Kvennakórinn Heklurnar í Mosfellsbæ eiga 15 ára afmæli á þessu ári.
Af því tilefni halda þær tónleika í Guðríðarkirkju þriðjudaginn 1. maí klukkan 17:00.
Yfirskrift tónleikanna er „Ástir og örlög“ þar sem Heklurnar munu syngja lög sem hafa fylgt kórnum í gegnum tíðina og hann hefur tekið ástfóstri við. Á efniskránni eru m.a. Stingum af eftir Mugison, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson, Vikivaki Valgeirs Guðjónssonar auk fleiri sígildra dægurlaga, ættjarðarlaga og nokkurra þjóðlaga.
Nýr stjórnandi kórsins er Dagný Jónsdóttir og meðleikari á tónleikunum er Kristján Karl Bragason.
Kvennakórinn Heklurnar var stofnaður árið 2003 og hefur það að markmiði að vera „kórinn sem bakar ekki“, þar sem í upphafi var ákveðið að standa ekki fyrir neinum fjáröflunum til að standa straum af kostnaði við að halda kórnum gangandi. Kórinn æfir einu sinni í viku í Varmárskóla.
Kórinn er á leið í afmælisferð til Ungverjalands 10. mai nk. og mun halda eina tónleika í kirkju í borginni Kecskemét. Þar tekur á móti kórnum ungverskur kvennakór og hitar upp fyrir tónleikana þeirra.