Stjórn Gígjunnar, í samráði við Kvennakór Reykjavíkur, hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðu landsmóti, sem átti að halda í september 2021 (og þar áður í maí 2020) fram til vorsins 2023.
Ástæðurnar fyrir þessu eru margar og spilar óvissa vegna Covid-19 stóran sess í þessari ákvörðun. Kórastarf hefur verið í algjöru lágmarki undanfarið ár. Kórar hafa ekki náð að hittast og æfa saman í marga mánuði, fjárhagsstaða er erfið og óvissan vegna bólusetninga er alger. Kórar hafa nóg með að halda starfinu gangandi þannig að hægt sé að stefna á að halda tónleika og annað án þess að álag vegna æfinga við landsmót sé á það bætandi.
Stjórn Gígjunnar - ásamt landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur - telur að ánægjan af því að mæta á landsmót sé í lágmarki við þessar aðstæður og erfitt fyrir kóra að sýna sitt besta á þannig móti og því hefur þessi ákvörðun verið tekin.
Landsmótsnefnd hefur nú þegar hafið þá vinnu að finna mótinu stað og tíma í maí 2023 í Reykjavík.
Tímasetning, upplýsingar vegna skráningu, kostnaður og allt þetta verður sent til ykkar þegar nær dregur.
Einnig verða upplýsingar um smiðjur sendar til ykkar í tíma.
Varðandi þau lög sem nú þegar hefur verið dreift til ykkar, þá er það alls óvíst að þau verða sungin á mótinu 2023. Ef einhver vill fá að nota þau lög og flytja á sínum tónleikum, þá biðjum við ykkur vinsamlega að vera í samþykki við smiðjustjórana sem lögðu til lögin og fá þeirra samþykki.
Ekki er heimilt að flytja landsmótslagið á tónleikum fyrr en eftir landsmót 2023.
Við vonum að þessi ákvörðun komi ykkur ekki illa, það var erfitt að þurfa að taka hana því að við sem höfum áður farið með kórnum okkar á landsmót, vitum hvað það er skemmtilegt og gefandi að mæta á svona mót. En að sama skapi var hún líka auðveld því það er ekki skemmtileg tilhugsun að þurfa að mæta á landsmót þar sem Covid-19 skýið skyggir á gleðina.
Árið 2023 verður Gígjan 20 ára og mótshaldarinn, Kvennakór Reykjavíkur verður 30 ára. Það verður því ærið tilefni til að halda skemmtilegt, stórkostlegt og langþráð landsmót Gígjunnar í maí 2023 og við sjáumst vonandi allar þá.
Fyrir hönd stjórnar Gígjunnar,
Kolbrún Halldórsdóttir formaður