Með hliðsjón af gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum og að höfðu samráði við embætti landlæknis leggur Gígjan til eftirfarandi verklag við æfingar og samveru kóra til að fylgja megi til hlítar gildandi kröfum um sóttvarnir:
- Ráðlagt er að á kóræfingum sé fjarlægð milli syngjandi kvenna eigi minni en 1 metri og helst meiri ef unnt er.
- Til að tryggja megi sem best góða fjarlægð milli kvenna þarf að taka mið af æfingaaðstöðu hvers kórs og jafnvel skipta kórum upp á æfingum ef stærð húsnæðis krefst þess. Til dæmis er hægt að skipta æfingatíma milli radda eða blanda röddum í hópa og miða við þann fjölda sem æfingahúsnæði og fjarlægðarmörk ráða við. Mælst er til þess að hópar haldist þeir sömu meðan þessi staða varir svo ekki sé verið að blanda hópum saman meira en nauðsynlegt er.
- Mikilvægt er að konur haldi sig heima við ef þær finna fyrir flensueinkennum (hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta).
- Nauðsynlegt er að sameiginlegir snertifletir í æfingahúsnæði séu vel sótthreinsaðir fyrir og eftir notkun, til dæmis stólarmar, borð og hurðahúnar. Tryggja þarf að salernisaðstaða sé einnig sótthreinsuð.
- Afar mikilvægt er að huga vel að persónulegum sóttvörnum þar með talið nálægðartakmörkunum, hreinsun handa og að sýna tillitsemi við hósta og hnerra og nota olnbogabót en ekki hendur.
- Ekki er sérstaklega mælst til þess að nota grímur á æfingum og hafa ber í huga að grímunotkun kemur ekki í staðinn fyrir góða fjarlægð milli söngkvenna.
Við í stjórn Gígjunnar hvetjum kóra til að hefja æfingar en gæta ávallt ýtrustu sóttvarna. Söngur er heilsubætandi og mikilvægt er að kórar hlúi að kórstarfinu. Þessar leiðbeiningar eru til viðmiðunar miðað við núgildandi sóttvarnareglur stjórnvalda en kórum er í sjálfsvald sett að ganga lengra í sóttvörnum. Mikilvægt er að endurskoða kórstarfið reglulega með hliðsjón af gildandi reglum hverju sinni og munum við í stjórn leitast við að vera kórum til leiðbeiningar eftir því sem aðstæður breytast.
Gangi ykkur vel og knús á línuna
Kveðja, Kolla - formaður