Nú er að koma að vortónleikum Kvennakórs Akureyrar og að þessu sinni er yfirskrift þeirra "Dívur og drottningar".
Á efnisskránni eru að stórum hluta lög eftir konur og lög sem konur hafa gert fræg. Þannig feta kórkonur í fótspor Adele, Whitney Houston, Dolly Parton og fleiri góðra kvenna. Efnisskráin er mjög fjölbreytt, allt frá kafla úr sálumessu að popplögum og sungið er á latínu, ítölsku, finnsku, ensku og íslensku.
Gestasöngvarar verða Þórhildur Örvarsdóttir og Ívar Helgason, en úr kórnum syngur Halla Jónsdóttir einsöng.
Undirleikarar eru Aladár Rácz á píanó og Pétur Ingólfsson á bassa og stjórnandi er Daníel Þorsteinsson.
Tónleikarnir verða haldnir á annan í hvítasunnu, mánudaginn 25. maí í Hömrum í Hofi kl. 15:00.
Miðasala er í Menningarhúsinu Hofi og á midi.is og verðið er 3000 kr.