Fyrir 25 árum tóku nokkrar konur úr Rangárvallasýslu sig til og stofnuðu kvennakór. Hlaut kórinn nafnið Kvennakórinn Ljósbrá. Í gegnum árin hafa meðlimir kórsins notið þess að hittast og syngja saman og skapa góðar minningar. Í kórnum starfa að jafnaði 30 - 40 konur og hefur fjölbreytt tónlist orðið fyrir valinu í gegnum áranna rás.
Markmið kórsins hefur verið að vinna stöðugt að framförum og hafa metnað ávallt í fyrirrúmi. Kórinn hefur tekið þátt í öllum landsmótum kvennakóra og hélt utan árið 2006 þar sem íbúar Austurríkis fengu að hlýða á raddir kórsins. Sama ár hlaut kórinn Menningarverðlaun Sunnlenska fréttablaðsins og Töðugjalda og gaf út geisladiskinn Fljóðaljóð haustið 2009. Núverandi stjórnandi kórsins er Maríanna Másdóttir og hefur hún stjórnað kórnum frá árinu 2011.
Kvennakórinn hefur ekki setið auðum höndum og ekki verður breyting á þetta vorið þegar haldið verður upp á 25 ára afmæli kórsins. Í tilefni af afmælinu hafa konurnar skellt sér í nýja kjóla, túberað á sér hárið og sett upp hanskana. Nú verður efnisskráin í anda sixties áranna, létt og skemmtileg.
Heldur kórinn tvenna tónleika, föstudaginn 8. maí í Hvolnum Hvolsvelli kl. 20:00 og laugardaginn 9. maí í Áskirkju Reykjavík kl. 16:00.
Kórkonur vonast til að sem flestir sjái sér fært að fagna afmælinu með þeim.