Jórukórinn hefur haft í mörgu að snúast þennan veturinn vegna Landsmóts kvennakóra, sem verður á Selfossi í lok apríl. Þar sem Landsmótið er stórviðburður á tónleikavorinu þá eru vortónleikar kórsins fyrr á ferðinni en verið hefur og hafa þær fengið til liðs við sig Kvennakórinn Ljósbrá. Tvennir tónleikar eru fyrirhugaðir, sunnudaginn 3. apríl í Selfosskirkju kl. 20.00 og þriðjudaginn 5. apríl kl. 20.30 í Digraneskirkju í Kópavogi.
Stjórnandi Kvennakórsins Ljósbrár er Eyrún Jónasdóttir og Jórukórnum stjórnar Helena R. Káradóttir. Píanóleikarar eru Gróa Hreinsdóttir með Ljósbrám og Þórlaug Bjarnadóttir með Jórum. Þeir Jóhann Stefánsson og Smári Kristjánsson leika með í nokkrum lögum.
Efnisskrá kóranna er fjölbreytt og í léttari kantinum, dægurlög í bland við klassík og íslenskar söngperlur. Kórarnir eru með sitt hvora efnisskrána og sameina einnig krafta sína í nokkrum lögum. Óhætt er að lofa skemmtilegum tónleikum með þessum frábæru kórum.