Sunnudaginn 29. nóvember söng Kvennakór Suðurnesja við messu í Árbæjarkirkju. Sr. Þór Hauksson og sr. Sigrún Óskarsdóttir þjónuðu fyrir altari og Pétur Pétursson prófessor við guðfræðideild HÍ predikaði. Kirkjukórinn leiddi almennan safnaðarsöng undir stjórn Krisztinu Kalló Szklenár og Hjörleifur Valsson léká fiðlu auk þess sem Kvennakór Suðurnesja söng nokkur lög. Að lokinni messu var kaffihlaðborð kvenfélags Árbæjarsafnaðar þar sem haldið var líknarsjóðshappdrætti til styrktar bágstöddum í söfnuðinum. Kvennakór Suðurnesja söng einnig nokkur lög þar.
Það er nóg að gera hjá Kvennakór Suðurnesja um þessar mundir. Laugardaginn 21. nóvember var hinn árlegi laufabrauðsdagur, en þá komu kórkonur saman ásamt nokkrum börnum og barnabörnum og skáru út og steiktu laufabrauð sem er selt í fjáröflunarskyni fyrir kórinn.
Auk þess er kórinn með sölubás í Skansinum, markaðstorgi í gamla Rammahúsinu á Fitjum í Reykjanesbæ þar sem seld eru jólakort, afmælisdagatöl og fleira. Laufabrauðið verður að sjálfsögðu einnig selt þar á meðan birgðir endast. Kórinn hefur þegar verið í Skansinum þrjár helgar og mun verða þar næstu helgi 5.-6. desember kl. 12-18 báða dagana. Það er tilvalið að bregða sér í bíltúr suður með sjó og kíkja við í Skansinum þar sem ýmislegt skemmtilegt er í boði.
Fimmtudaginn 3. desember verða svo jólatónleikar Kvennakórs Suðurnesja haldnir í Ytri-Njarðvíkurkirkju, nánar um það síðar.