Kvennakórinn Sóldís úr Skagafirði verður á ferðinni um helgina þegar hann heldur tónleika í Borgarfirði. Tónleikar Sóldísa verða laugardaginn 29. mars kl. 15 í Reykholtskirkju og klukkan 20 í Tónbergi á Akranesi.
Kórinn var stofnaður á haustdögum 2010 af þremur konum í Skagafirði og samanstendur nú af 43 konum úr Skagafirði og Húnavatnssýslu, auk söngstjóra og undirleikara, en söngstjóri er Sólveig S Einarsdóttir og undirleikari Rögnvaldur Valbergsson.
Kórinn heldur sína aðaltónleika á konudeginum ár hvert, í menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði, með hnallþóru veisluborði í lokin. Auk þess heldur kórinn tónleika í nærsveitum og fer í söngferð þegar líður að vori í næstu héruð. Á þessu söngári er þemað hjá kórnum „íslenskir textar og íslenskir textahöfundar“. Á síðasta söngári var þemað að syngja lög „eftir konur og um konur“ og árið þar á undan var þemað fjölmenningarlegt, eða „sungið á sem flestum tungumálum“.