Þann 5. apríl nk. verða liðin 10 ár frá stofnun Gígjunnar, landssambands íslenskra kvennakóra.
Sú hugmynd kom fram á stjórnarfundi Gígjunnar í haust að leita eftir tónskáldi til að semja lag í tilefni þessara tímamóta. Samþykkt var að leita til Þóru Marteinsdóttur tónskálds og tók hún einkar vel í beiðnina.
Þóra samdi mjög fallegt lag og útsetti það fyrir kvennakór og píanó. Ljóðið við lagið er eftir skáldkonuna Huldu eða Unni Benediktsdóttur Bjarklind og heitir „Breyttur söngur“ en texti þess á vel við á þessum tímamótum.
Til að fjármagna verkið var sótt um styrk fyrir Tónverkasjóð Gígjunnar til Hlaðvarpans og hlaut verkefnið rausnarlegan styrk. Styrkurinn var formlega afhentur þann 3. janúar sl. og tók Anna Laxdal Þórólfsdóttir formaður Gígjunnar við honum fyrir hönd Tónverkasjóðsins.
Lagið var sent aðildarkórum Gígjunnar í janúar með ósk um að allir kórar sambandsins setji lagið á dagskrá sína í vor og að það verði sérstaklega kynnt á tónleikum kóranna í tilefni afmælisins.